Heimshöfin súrna jafnt og þétt (in icelandic)

Aukin koltvísýringslosun hefur ekki bara áhrif á hitastig andrúmsloftsins, heldur einnig á efnajafnvægið í sjónum. Hvaða áhrif súrnun hafsins hefur á lífríki sjávar er mönnum enn hulin ráðgáta. Guðsteinn Bjarnason og Auðunn Arnórsson kynntu sér málið.

Hlýnun andrúmslofts jarðar vegna brennslu jarðefnaeldsneytis hefur valdið mönnum vaxandi áhyggjum, en færri hafa leitt hugann að áhrifum svonefndra gróðurhúsalofttegunda á höfin.

Hlýnun andrúmslofts jarðar vegna brennslu jarðefnaeldsneytis hefur valdið mönnum vaxandi áhyggjum, en færri hafa leitt hugann að áhrifum svonefndra gróðurhúsalofttegunda á höfin. Þekking vísindamanna á þessari hlið málsins er þó smám saman að aukast.

Mestu munar þar um koltvísýring sem veldur því að hafið súrnar. Súrnun hafsins hefur síðan margvísleg áhrif á lífríkið í höfunum, þótt enn sé ekki ljóst nákvæmlega hver þau áhrif eru.

Vísindamenn, sem fást við rannsóknir á áhrifum súrnunar hafs á lífríki sjávar, telja mikilvægt að unnið verði markvisst gegn frekari súrnun hafsins og allt rannsóknarstarf á þessu sviði verði eflt til muna. Það gæti orðið afdrifaríkt að sinna ekki þessu verkefni.Helmingurinn í hafið

Talið er að helmingur af öllum þeim viðbótarkoltvísýringi, sem borist hefur út í andrúmsloftið síðan iðnvæðing hófst um miðja átjándu öld, hafi farið í hafið. Þetta hefur nú þegar valdið því að sýrustig hafsins hefur lækkað um 0,1 stig, nefnilega úr 8,2 stigum á pH-kvarðanum, sem talið er “eðlilegt” sýrustig hafsins miðað við ástand þess fyrir iðnvæðingu, niður í 8,1 stig.

Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur rannsakað gróðurhúsaáhrifin, spáir því að sýrustig sjávar muni að meðaltali lækka um 0,14 til 0,35 stig á þessari öld, sem þýðir að um næstu aldamót verði sýrustigið væntanlega orðið um það bil 7,8 stig. Milljónir ára eru síðan sýrustig hafsins var svo lágt.

Þessar tölur virka kannski ekki mjög afdrifaríkar, en þá má benda á að hækkun eða lækkun upp á 0,1 stig þýðir í raun 30 prósenta breytingu, þannig að hér er ekki um neinar smáhreyfingar að ræða á pH-skalanum.

Menn eru að vakna

“Menn byrjuðu fyrst að átta sig á þessu fyrir um það bil áratug, eða jafnvel aðeins fyrr,” segir Jón Ólafsson, hafefnafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun Íslands.

“Síðan hafa menn vaknað upp og það sem hefur gerst er að menn hafa hrundið af stað stórum rannsóknarverkefnum, bæði í Ameríku og Evrópu.”

Íslendingar eiga aðild að einu slíku evrópsku rannsóknarverkefni sem heitir EPOCA, eða European Project on Ocean Acidification. Tuttugu og sjö evrópskar rannsóknastofnanir taka þátt í því verkefni, þar á meðal Hafrannsóknastofnunin hér á landi.

Jón er meðal frumkvöðla í þessum rannsóknum, því strax árið 1983 byrjaði hann að mæla koltvísýring í sjónum umhverfis Ísland. Mælingar eru gerðar ársfjórðungslega, og nokkuð góð mynd er til af þróuninni hér við land.

Hraðar breytingar hér

“Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land,” segir Jón. “Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði.” Ástæðurnar fyrir því að þetta gerist hraðar í sjónum í kring um Ísland eru að mestu kunnar, að sögn Jóns. Þær tengist meðal annars straumakerfi Norður-Atlantshafsins.

Jón segir að breytingarnar á sýrustiginu verði hraðastar þar sem heimshöfin taka mest í sig af koltvísýringi. “Það er bara það gjald sem þarf að greiða fyrir þetta. En sýrustigsbreytingarnar eru í sjálfu sér bara breytingar á efnajafnvægjunum, eða hliðrun efnajafnvægjanna, ekkert annað.”

Hvaða áhrif þetta hefur síðan á

lífríkið í hafinu kringum Ísland er mönnum hulin ráðgáta. Um það er nákvæmlega ekkert vitað enn þá, segir Jón. Frekari rannsókna er því þörf.

Hnignun kórala

Jón segir hins vegar áhrifin af auknu magni koltvísýrings í höfunum vera tvíþætt: “Annars vegar lækkar sýrustig sjávar og hins vegar lækkar kalkmettun.”

Minni kalkmettun í höfunum hefur bein áhrif á kalkmettandi lífverur, en það eru lífverur sem mynda stoðvef eða skeljar úr kalki. Þetta eru til dæmis kóralar og skeldýr ýmis konar.

“Kóralar eru til dæmis farnir að líða fyrir þetta strax, og þetta er ein ástæðan fyrir því að kóralrifum er að hnigna. Þessar kalkmyndandi plöntur og dýr eru reyndar mjög mikilvægur þáttur í vistkerfum hafsins og skemmdir á þeim eða hreinlega eyðilegging þeirra mun hafa mikil áhrif á vistkerfið í heild.”

Skorað á ráðamenn

Nú í lok janúar sendu meira en 150 vísindamenn frá 26 löndum, sem allir starfa á sviði hafrannsókna, frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á stjórnvöld allra ríkja heims að grípa strax til aðgerða til að stöðva þessa þróun.

Þar segjast vísindamennirnir hafa miklar áhyggjur af hröðum breytingum undanfarið á efnasamsetningu hafsins sem innan fárra áratuga gætu haft “alvarleg áhrif á lífríki sjávar, fæðuvef, líffræðilega fjölbreytni og sjávarútveg.”

Yfirlýsingin var samþykkt að lokinni alþjóðaráðstefnu um málið, sem haldin var í Mónakó í október síðastliðnum, og er því jafnan nefnd Mónakó-yfirlýsingin. Meðal þeirra vísindamanna, sem undirrita yfirlýsinguna, er Jón Ólafsson frá Hafrannsóknastofnun Íslands.

Í yfirlýsingunni segir að hraði þessarar þróunar sé mikill en erfitt verði að snúa henni við. Enn sé þó tími til að grípa inn í: “Fyrst og fremst verða stjórnmálamenn að átta sig á því að súrnun hafsins er ekkert aukaatriði. Þetta er hin hliðin á koltvísýringsvandanum, sem við verðum að takast á við ásamt loftslagsbreytingum,” segir í Mónakó-yfirlýsingunni.

Komið á dagskrá

Lengi vel var súrnun hafsins lítið til umræðu á meðal vísindamanna eða stjórnmálamanna, þrátt fyrir sívaxandi umræður um gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar. Til dæmis lítið á hana minnst í Kyoto-bókuninni árið 1997, en nú er þetta komið á dagskrá hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem í síðustu matsskýrslu sinni spáir frekari súrnun næstu áratugina.

Í Kaupmannahöfn var fyrr í þessum mánuði haldin alþjóðleg ráðstefna þar sem rætt var um það sem nýtt hefur komið fram í loftslagsrannsóknum frá því IPCC gaf út síðustu skýrslu sína árið 2007. Ráðstefnan var liður í undirbúningi fyrir leiðtogafund SÞ um loftslagsmál sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember.

Súrnun hafanna er einn þessara nýju þátta, sem vísindamenn gefa nú meiri gaum að sögn Jóns Ólafssonar, sem sat ráðstefnuna fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar. Jón segist þess fullviss að áhrif loftslagsbreytinga á heimshöfin muni framvegis hafa meira vægi í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál og honum þykir líklegt að þeim verði gefið meira vægi í næstu skýrslu IPCC.

Geymsla CO2 undir hafsbotni?

Meðal leiða sem vísindamenn eru nú að kanna til að draga úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið er að binda hann á vökvaformi við mikinn þrýsting og lágt hitastig, og dæla honum þannig til geymslu niður undir hafdjúpin, þar sem aðstæður eru þannig að hin fljótandi gróðurhúsalofttegund haldist þar til langframa. Jón segir spurður út í þetta að þessi aðferð sé bara á rannsóknastigi, og ýmsir aðilar, þar á meðal alþjóðleg umhverfisverndarsamtök, hafi lýst sig andvíga henni vegna óvissunnar um langtímaáhrifin.

Jón bendir reyndar á að vert sé að geta þess að verið er hérlendis að gera tilraunir með að dæla koltvísýringi uppleystum í vatni niður í borholur í jarðhitaorkuverum, með það fyrir augum að nýta borholurnar til langtímageymslu koltvísýrings.

Frétbladid, 28 March 2009. Article.


  • Reset

Subscribe

OA-ICC Highlights


%d bloggers like this: